Sigurvon og KVOT sameinast

Krabbameinsfélagið Sigurvon hefur sameinast Krabbameinsfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar (KVOT). Starfsvæði Sigurvonar nær því núna yfir alla Vestfirði. Sameiningin var samþykkt á aðalfundi Sigurvonar á fimmtudaginn sl. eftir viðræður við stjórn KVOT um tíma. KVOT hefur að mestu verið óvirkt í nokkurn tíma og hlakka aðstandendur Sigurvonar til að auka þjónustu við íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum með aðstoð tengiliðar þess á svæðinu Önnu Stefaníu Einarsdóttur. „Við lítum á þetta sem frábært tækifæri til að stækka starfsvæðið og auka þjónustu okkar við fleiri Vestfirðinga,“ segir Helena Hrund Jónsdóttir, formaður Sigurvonar.

 

Á aðalfundinum var stjórn Sigurvonar endurkjörin auk þess sem nýr varamaður bættist í hópinn. Stjórnin er því svohljóðandi: Helena Hrund Jónsdóttir formaður, Þórir Guðmundsson ritari, Martha Kristín Pálmadóttir gjaldkeri. Meðstjórnendur eru þau Fjölnir Ásbjörnsson og Auður Helga Ólafsdóttir. Varamenn eru Heiðrún Björnsdóttir, Davíð Björn Kjartansson og Ólafur Guðsteinn Kristjánsson sem kemur nýr inn.

Krabbameinsfélagið Sigurvon styður fjárhagslega við félagsmenn sína til að standa straum af gistikostnaði, sem annars myndi gera róðurinn enn þyngri er hann bætist ofan á læknis- og rannsóknakostnað. Félagið veitir auk þess einstaklingum ótilgreinda fjárstyrki sé óskað eftir því.

Þá veitir félagið einnig stuðning á jafningjagrundvelli en stuðningshópur félagsins, Vinir í von, er með reglulegar samverustundir yfir vetrartímann. Hópurinn hefur notið góðvildar geðræktarmiðstöðvarinnar Vesturafls, sem lætur honum í té aðstöðu að Suðurgötu 9. Þar fyrir utan hefur hópurinn einnig hist á veitingahúsum Ísafjarðar af og til, til þess að lyfta sér aðeins upp.