Hlaupahópur Sigurvonar hefur göngu sína á ný á Ísafirði á þriðjudag kl. 16:15. Æfingar verða í boði tvisvar í viku þátttakendum að kostnaðarlausu en hlaupið verður frá Torfnesi á þriðjudögum og fimmtudögum. Hlaupahópurinn var fyrst starfræktur sumarið 2019 og hafa aðstandendur hans beðið með óþreyju að geta byrjað á ný. „Við hefðum haldið áfram síðasta sumar ef heimsfaraldurinn hefði ekki sett strik í reikninginn og erum rosa spennt að byrja aftur,“ segir Helena Hrund Jónsdóttir, formaður Sigurvonar.
Á fjórða tug meðlima, allt frá byrjendum til reyndra hlaupara, voru í hópnum árið 2019 og hlupu flestir þeirra svo til styrktar Sigurvonar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbaka í ágúst. Helena segir það þó alls ekki vera skilyrði fyrir þátttökunni. „Hlaupafélagarnir hafa það að leiðarljósi að hafa gaman af þessari hollu hreyfingu ásamt því að auka andlega og líkamlega vellíðan sína. Það skiptir að sjálfsögðu mestu máli og allt umfram það er bara bónus.“ Hún ítrekar að allir séu velkomnir og að hver þátttakandi geti stýrt sínu hlaupi eftir eigin getu. Æfingarnar verða undir tilsögn Árna Heiðars Ívarsson, einkaþjálfa og hlaupara með meiru.
Krabbameinsfélagið Sigurvon hefur í 20 ár beitt sér af krafti fyrir því að veita félagsmönnum sínum með krabbamein og aðstandendum þeirra fjárhagslegan og andlegan stuðning. Sigurvon er starfrækt á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum. Nánari upplýsingar á krabbsigurvon.is.