Fundað á sunnanverðum Vestfjörðum

 

Frá fundinum í Félagsheimili Patreksfjarðar.

Stjórn Sigurvonar hélt kynningarfund á Patreksfirði í fyrradag. Markmiðið með fundinum var að kynna félagið á stækkuðu starfsvæði félagsins sem nú inniheldur einnig sunnanverða Vestfirði eftir sameiningu við Krabbameinsfélag Vesturbyggðar og Tálknafjarðar (KVOT). Fundað var í félagsheimilinu á Patreksfirði og meðal annars voru ræddar hugmyndir um hvernig gera mætti félagið sýnilegra á svæðinu. Þá var ákveðið að Fanney Inga Halldórsdótti tæki við sem tengiliður af Önnu Stefaníu Einarsdóttur eftir næsta aðalfund en tæki til starfa nú þegar. Eru tveir tengiliðir á sunnanverðum Vestfjörðum fram í  mars.

Stjórn Sigurvonar sér mikil tækifæri í stækkuðu þjónustusvæði og hlakkar mikið til að kynnast nýjum félagsmönnum. Hvetur stjórnin áhugasama um að setja sig í samband við starfsmann Sigurvonar; Thelmu Hjaltadóttur ef

þeir vilji skrá sig í félagið eða fræðast um starfsemi þess – eða tengiliðina tvo, þær Fanney Ingu og Önnu Stefaníu.

Á leið á fundinn á Patreksfirði.

Krabbameinsfélagið Sigurvon styður fjárhagslega við félagsmenn sína til að standa straum af gistikostnaði, sem annars myndi gera róðurinn enn þyngri er hann bætist ofan á læknis- og rannsóknakostnað. Félagið veitir auk þess einstaklingum ótilgreinda fjárstyrki sé óskað eftir því.

Með því að skrá sig í félagið og greiða ársgjaldið eru félagsmenn því að styðja við bakið á þeim sem eru í krabbameinsmeðferð.

Næsta fimmutudag mun stjórn Sigurvonar bregða sér á Hólmavík og ræða við Strandamenn. Fundurinn hefst kl. 20 í Café Riis á Hólmavík og eru allir hjartanlega velkomnir.