Hlaupið í minningu Öllu

Hlaupahópur hefur verið stofnaður í minningu Aðalbjargar Óskarsdóttur á Drangsnesi sem lést eftir stutt veikindi í mars. Að hennar beiðni safnar hlaupahópurinn áheitum til styrktar vestfirska krabbameinsfélaginu Sigurvon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst. „Alla sagði að litla félagið út á landi skipti miklu máli og væri að vinna gott verk, hún vildi að við myndum styrkja það og að sjálfsögðu hlýðum við því,“ segir Freyja Óskarsdóttir systir Aðalbjargar og ein af hópnum. Hlaupahópur Öllu telur nú níu manns og hafa safnast hátt í 250.000 krónur eða helmingur setts markmiðs. Nægur tími er þó til stefnu og hvetja aðstandendur Sigurvonar til að leggja þessu lið.

 

Aðalbjörg Óskarsdóttir fæddist 25. janúar 1982 og lést úr krabbameini þann 18. mars 2023. Hún skildi eftir sig eiginmann og þrjú börn, stórfjölskyldu og ástríkan og stóran vinarhóp eins og sést má á viðtökunum sem hlaupahópurinn hefur fengið.

Hægt er að heita á hópinn inn á vef Reykjavíkurmaraþonsins.